Fyrsta fullyrðing: Við lifum öll tvöföldu lífi.
Hvert eitt og einasta okkar lifir tvöföldu lífi. Ég vil kalla þessi líf ytra líf og innra líf. Tvö líf sem eiga sér stað samtímis; annað er sýnilegt öllum sem á vegi okkar verða, hitt er aðallega sýnilegt okkur sjálfum og stundum varla það. Innra lífið getur verið ríkulegt og spennandi þó hið ytra láti lítið yfir sér. Undir yfirborði glæsilegs ytra lífs getur leynst innra líf sem einkennist af óöryggi og niðurrifi. Fólk ber innra lífið ekki beinlínis utan á sér, en það hefur sannarlega áhrif hið ytra. Í bók sinni The Inner Game Of Tennis (1974) fjallar Timothy Gallwey um áhrif innra lífs tennisleikara á frammistöðu þeirra á vellinum. Hann áttaði sig á því að markviss þjálfun hugans var ekki síður mikilvæg en tæknilegar æfingar til að bæta árangur íþróttamanna. Í markþjálfun vinnum við markvisst með innra lífið og áhrif þess á ytra lífið, það líf sem við lifum í samskiptum við heiminn.
Önnur fullyrðing: Ímyndunarafl er eitt fallegasta orð íslenskrar tungu.
Fegurð orðsins ímyndunarafl liggur í því hversu gegnsætt það er. Það segir okkur að það felst kraftur í því að geta ímyndað sér. Þegar maður ímyndar sér eitthvað býr maður til einhvers konar mynd í huga sér, í-mynd. Draumar, þrár, langanir og tilfinningar fá form og maður byrjar að sjá það fyrir sér. Það sem við sjáum fyrir okkur hið innra verður leiðarvísir í ytri veruleikanum. Það má því segja að ímyndunarafl sé ofurkraftur. Það er sannarlega öflug leið til að vinna með viðhorf til sjálfs sín og umheimsins. Íþróttamenn Timothy Gallweys áttuðu sig á því að þessi þjálfun hugans gat nýst fólki til árangurs á ýmsum sviðum lífsins, ekki bara á tennisvellinum. Í markþjálfun beitum við ímyndunaraflinu til að vaxa og stækka og sprengja ramma af öllu tagi. Það þarf ímyndunarafl til að opna nýja sýn, sjá nýja möguleika og skynja nýjar víddir; möguleikavíddir. Þess vegna er ímyndunarafl eitt fallegasta orð íslenskrar tungu. Það sýnir okkur að við höfum getuna til að skapa betri heim.
Þriðja fullyrðing: Tilgang lífsins geymum við í hjartanu.
Heimurinn breytist ekki við það eitt að ímynda sér breytingar. Hugræn vinna tennisleikara Timothy Gallways skilaði sér ekki í framförum fyrr en þeir tóku sjálfir ábyrgð á því að gera það sem gera þurfti svo breytingar gætu átt sér stað. Til að breyta heiminum þurfum við á sama hátt að taka ábyrgð á heimsbætandi hugmyndum og til þess að framkvæma þurfum við drifkraft, eitthvað sem hvetur okkur áfram og gefur athöfnum okkar tilgang. Þegar athafnir okkar eru bornar uppi af sterkri tilfinningu, eru tengdar við hjartað, verður tilgangurinn skýr. Stundum skortir okkur hugrekki og við hikum. Þá er gott að vita að á frönsku er orðið hugrekki skrifað courage og hjarta coeur. Hugrekkið býr nefnilega í hjartanu. Í markþjálfun náum við tengingu við hjartað og við berum ábyrgð á því að hlusta á hvað það vill segja okkur og bregðast við. Þegar hugur, hjarta og hendur vinna saman eru möguleikar lífsins óendanlegir.
Þessi grein birtist fyrst í Hvata, veftímariti Evolvia, 2. tbl 2023
Yorumlar