top of page
Search

Alltaf nóg

  • olofingolfsdottir
  • Dec 25, 2025
  • 2 min read


Margir óttast að vera ekki nóg. Ekki nógu gáfaðir, ekki nógu fallegir, ekki nógu góðir á einn eða annan hátt. Við mætum mörgum áskorunum í lífinu og komum ekki alltaf út sem sigurvegarar. Þá getur manni fundist að maður dugi ekki til; sé ekki nóg. 


En er gott líf ein samfelld sigurganga? Eða skiptir meira máli að mæta áskorunum lífsins af heilindum og draga síðan lærdóm af útkomunni? Með því að takast á við lífið höldum við áfram að vaxa og þroskast ævina á enda. Við getum lært mikið af því sem ekki fer eins og við hefðum helst kosið og þar leynast stundum óvænt tækifæri sem við sáum ekki fyrir.


Hvaðan koma þessar hugmyndir um að við séum ekki nógu mikið hitt eða þetta? Hvað viðmið liggja þar til grundvallar og hver bjó þau til? Stundum erum við að bera okkur saman við aðra og komumst að þeirri niðurstöðu að við séum á einhvern hátt minna en einhver annar. Höfum í huga að sama hversu snjöll, falleg og frábær við erum, þá má alltaf finna einhvern annan sem er ennþá klárari, flottari og betri á einhverju sviði tilverunnar. Þessi hugmynd um að við séum ekki nóg leiðir af sér skorthugsun og full af sektarkennd og sjálfsfyrirlitningu reynum við að bæta heiminum upp ófullkomleika okkar með einhverjum hætti og það fer að lita samskipti okkar við aðra.


Hvað þýðir þá að vera nóg? Það þýðir alla vega ekki að maður þurfi að vera bestur í öllu og geta leyst öll mál og svarað öllum spurningum tilverunnar upp á tíu. Sjálfsþekking er lykillinn að því að þekkja eigin styrkleika og veikleika og geta tekist á við verkefni lífsins af heiðarleika og einurð. Enginn gerir allt einn, enda er manneskjan félagsvera og þrífst á samvinnu og samveru við aðra. Gerum okkar besta og biðjum um hjálp þegar meira þarf til. Mætum hugrökk til leiks þegar lífið bankar og munum að við erum alltaf nóg.


 
 
 

Comments


bottom of page